All about and around Landmannalaugar in the highlands of Iceland. 
    Built on personal experience and taste of insiders.
    Though experience is big and taste is great, try other issues as well, to be sure.
  
  Landmannalaugar.info Google
 

  A-Ö Landmannafréttur
   
Varúð, upplýsingarnar á þessari síðu eru byggðar á persónulegri getu, smekk og reynslu höfunda hennar. 
    Þetta er ekki löggilt fræðimannaverk en höfundarnir hafa samt mikla getu, góðan smekk og víðtæka reynslu. 

 A  Á  B  C  D  Ð  E  É  F  G  H  I  Í J  K  L  M  N  O  Ó  P  R  S  T  U  Ú  V  Y  Ý  Þ Æ Ö 

 A

Austur-Barmur (Barmur, Norður-Barmur):  Bogadregin fjallarönd sem sýnir hve gleggst útlínur Torfajökulsöskjunnar.  Þessi líparíthryggur er líka með eldri fjöllum svæðisins, eða eldri en 600.000 ára (efri hlutinn u.þ.b. 200.000 ára).  Sunnan undir fjallrananum er Jökulgil
Hinumegin frá er hægt að ganga upp og fá góða yfirsýn yfir Landmannalaugar og nágrenni.  Sólgular hlíðar fjallsins eru eitt vinsælasta myndefni Landmannalaugasvæðisins. Hæðsti punktur u.þ.b. 900 m.y.s.

Austurdalir (Austur-Reykjadalir):  Flatar grundir með gróðurblettum í rúml.800 m. hæð, norðvestan Hrafntinnuskers.  Þarna eru vatnaskil, með upphafi Markarfljóts.  Gjarnan er talað um að upphafspunktur þess sé í Stórahver, rétt upp af dölunum.

 Á

Áfangagil: Gistiskáli og tjaldstæði.  Vestan í Valafelli.
Var fyrir tíma bílsins upphafs- og endapunktur í fjallferðum, vegna nálægðar við byggð.
5 km frá Landvegi 26 eða 3 km af Landmannaleið (F 225). Tvö hús, svefnaðstaða fyrir 25 manns, eldhús með rennandi vatni og gashellum. Vatnssalerni. Þjönusta við hestumenn ( gerði og heysala).
Sími: 854 9500.

 B

Barmur (Austur-Barmur, Norður-Barmur):  Bogadregin fjallarönd sem sýnir hve gleggst útlínur Torfajökulsöskjunnar. 
Þessi líparíthryggur er líka með eldri fjöllum svæðisins, eða eldri en 600.000 ára (efri hlutinn u.þ.b. 200.000 ára).  Sunnan undir fjallrananum er Jökulgil
Hinumegin frá er hægt að ganga upp og fá góða yfirsýn yfir Landmannalaugar og nágrenni.  Sólgular hlíðar fjallsins eru eitt vinsælasta myndefni Landmannalaugasvæðisins. Hæðsti punktur u.þ.b. 900 m.y.s.

Blautaver: U.þ.b 30 hektara veiðivatn í um 570 m. y. s., norðan við gíg Ljótapolls, með urriða og bleikju og auk þess hornsílum.  Er n.k. botnlangi úr Tungnaá, en þó svo aðskilið að vatnið er tært.

Bláhnúkur: Það fjall sem næst stendur Landmannalaugum og er lang vinsælasta fjallgöngufjallið, brattur en vel troðinn og greinilegur stígur, útsýnisskífa efst. 
Nær gróðurlaust, 945 m.y.s., u.þ.b.50.000 - 90.000 ára fjall úr súru gjóskubergi.  Það er að hluta til úr biksteinshúðuðum hraunbólstrum og miklum glersalla. 
Talið er að ísaldarjökullinn hafi verið um 400 m. þykkur þegar Bláhnúkur hlóðst upp.  Litlu munaði að hann yrði að stapa því undir lok gossins náði hraun að renna í ísgöngum efst við eldstöðina.

Bjallavað: Í Tungnaá, við landgræðslugirðinguna, norðurmörk friðlandsins.  Ekki bílavað.  Fjallmenn ráku og reiddu fé yfir ánna þarna þegar það var hægt (eini mögulegi staðurinn).  Árið 1936 gátu þeir líka ferjað það, því vegamálastjóri lét setja upp báta fyrir ferðamenn.  Bátaskýlin standa enn þann dag í dag..

Bláhylur: (Hnausapollur, Tjörvafellspollur, fornt heiti er Litlavíti):
U.þ.b. 30 hektara vatn í gíg sem myndaðist fyrir u.þ.b. 1.130 árum í stuttu sprengivirku þeytigosi.
Eins og nofnin benda til, þa er gígurinn í Hnausum, nálægt Tjörvafelli og litur vatnsins er blár.Yfirborð u.þ.b. 570 m. y. s. 
Urriðar eru í vatninu, en þeir eru smáir og þykir fáum taka því að príla niður eftir þeim.  Hringvegur liggur upp á gígbarminn.  Þaðan er fljótgengið upp á hæsta Hnaus, fyrir enn betra útsýni. 

Brandsgil: Mikið gil austan Bláhnúks.  Það greinist fljótlega í Litla-Brandsgil og Stóra-Brandsgil.

Brennisteinsalda:Mikil litadýrð ásamt rjúkandi hverasvæði hafa gert þetta fjall að nokkurskonar einkennisfjalli Landmannalaugasvæðisins. 
Fyrsti hluti Laugavegarins liggur upp með því, þar sem upptök Laugahraunsins láta mikið fyrir sér fara.  Þetta er með vinsælli gönguleiðum landsins, og vel merkt.  Þaðan er stutt og auðratað upp á topp, í 855 m.y.s. Gosmyndun úr súru bergi undan jökli ísaldar. 

upp

 C

 D

Dalamót:  Þar sem Austurdalir og Vesturdalir mætast í gróðurspildu undir Hrafntinnuhrauni.  Leiðin inn í Hrafntinnusker liggur þar yfir grunnt vað, rétt neðan við upptök Markarfljóts.

Dómadalsháls:  Háls milli Kringlu og Dómadals.  Dómadalsleiðin liggur um hann.  Stundum þaulsetinn skafl þar snemmsumars.

Dómadalshraun: Rúmlega 1.850 ára líparíthraun, flatarmálsmikið en ekki nema um 0.06 km3 að rúmmáli, með upptök í nokkrum smágígum.  Dómadalsleiðin hlykkjast um hraunið milli Dómadals og Frostastaðavatns.  Hrauninu er gjarnan líkt við risastóran skúlptúragarð, þar sem drangarnir skaga upp úr sand"gólfinu".

Dómadalsleið: F 225.  Liggur frá Landvegi á móts við Búrfell, austur eftir afréttinum að gatnamótum norðan Frostastaðavatns, 47 km. ágætlega fær jeppavegur með nokkrum vöðum sem eru grunn þegar ekki eru vatnavextir. 
Stundum er talað um þessa leið sem hluta af Landmannaleið eða Fjallabaksleið nyrðri.

Dómadalsvatn:9 hektara vatn í Dómadalnum, í u.þ.b. 560 m. y. s.
Að nýloknum miklum vorleysingum nær það yfir nær allan dalinn.  Í því er sleppt urriðum sem ná þar ágætri stærð en hafa ekki skilyrði til að fjölga sér.  Vinsælt er að veiða á stöng í vatninu. (Veiðileifi seld í Landmannalaugum og Landmannahelli.) Að því liggur merktur slóði frá Dómadalshálsinum
Aðrar akleiðir eru ekki leyfilegar!

Dómadalur:  Dalur milli Dómadalshrauns, Stórhöfða og Lifrafjalla.  Lítill en að mestu gróinn.  Lítið vatn með urriðaveiði, Dómadalsvatn er þar og Dómadalsleið liggur um dalinn.  Er talinn hafa verið þingstaður fyrrum, þegar Rangæingar og Skaftfellingar þurftu að ræða eitthvað.

Dyngjur: Fjallaklasi norðan Löðmundar, sem vegna nágranna síns virkar lægri en hann er (770 m., 690 m.y.s. o.flr.).  Dyngjurnar eru grónar að meirihluta, einkum eru það sanddalir og klettagil sem eru ógróin.  Fáfarnar en fjölbreyttar og athyglisverðar gönguleiðir, ómerktar, eru þar.  Laufdalsvatn leynist í Dyngjum.

upp

 Ð

 E

Egilsgil:  Gil í sunnanverðum Löðmundi.  Þar á maður að nafni Egill að hafa hrapað til bana fyrr á öldum og gengið aftur í Landmannahelli.

Eskihlíð:Af fjöllunum í kringum Eskihlíðarvatn er þetta eina fjallið með umtalsverðri gróðurþekju. Þar að auki skartar Eskihlíð þverhníptum hömrum. Fáir ganga á þetta fjall, en það er tiltölulega auðvelt.  Efsti punktur þess er í 666 m.y.s.

Eskihlíðarhnausar: Fjöll við norðanvert Eskihlíðarvatn.  Fjallabaksleið nyrðri, til Hrauneyja, liggur norðan undir þeim.  Brött, sendin, ógróin og klettótt og nær aldrei klifin, þó það sé hægt.  Rúmlega 700 m.y.s

Eskihlíðarvatn:Nokkru austan við Löðmund er 27 m. djúpt, 175 hektara, og 3ja km. langt vatn, fylgjandi SA-NA stefnu eldstöðvakerfanna, umkringt fjöllum sem fylgja sömu stefnu.
Yfirborð u.þ.b. 540 m. y. s., Þetta er eitt þeirra vatna sem bleikju var sleppt í, með þeim afleiðingum að hún offjölgaði sér og át sig út á gaddinn.  Hrigningaskilyrði eru góð og hafa stórfelldar grisjunaraðgerðir ekki skilað árangri.  Verstöð grisjunarmanna framafréttarins er við suðurenda vatnsins.

 É

upp

 F

F þýðir fjallvegur. Að öllu jöfnu eru þesskonar vegir ekki ætlaðir venjulegum fólksbílum. Óbyggðavegir sem ekki hafa númer eru venjulega enn torfærari en númeruðu vegirnir.

F 26
Sprengisandsleið. Sá hluti hennar sem liggur innan Landmannaafréttar (frá Landvegi að Hrauneyjum) er malbikaður.

F 208
Fjallabaksleið nyrðri. Frá Hrauneyjum í norðri niður á þjóðveg 1 í Vestur Skaftafellssýslu.
Stundum kölluð Landmannaleið, að hluta eða heild.

F 210
Fjallabaksleið syðri. Leið á milli byggða í Vestur Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, sunnan Torfajökulshálendisins en norðan Mýrdals- og Eyjafjallajökla. Kemur hvergi inn á Landmannaafrétt.

F 225
Dómadalsleið eða Landmannaleið. Frá Frostastaðavatni í austri niður á Landveg í Rangárþingi.

Fitjafell: Lágt, algróið fjall norðanundir Mógilshöfðum.  Austari gatnamót Dómadalsleiðar og afleggjarans til Landmannahellis eru við rætur fellsins.

Fitjar: Stytting á Klukkugilsfitjar, en á venjulega við um stærra svæði en meint er með þeim, líklega allt flatlendið í kringum Löngusátu.

Fjallabaksleið nyrðri: F 208.  Leið frá Hrauneyjum til byggða í Vestur Skaftafellssýslu, um 100 km. Nokkurnveginn fólksbílafær frá Hrauneyjum til Landmannalauga og allt að Kirkjufellsósi á sumrin, eftir að Jökulgilskvísl var brúuð, 1966.  Mikið um vöð og frekar grófa vegi austan Landmannalauga.  Rætt hefur verið um vegaframkvæmdir, til að eiga "bakdyraleið" ef Kötlugos rjúfa þjóðveg nr. 1 neðan Mýrdalsjökuls.  Stundum er talað um Dómadalsleið sem hluta af Fjallabaksleið nyrðri.

Fjallabaksleið syðri:F 210.
Leið á milli byggða í Vestur Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, sunnan Torfajökulshálendisins en norðan Mýrdals- og Eyjafjallajökla. Kemur hvergi inn á Landmannaafrétt.

Friðland að Fjallabaki:  Stofnað 1979 til að varðveita einkar fagra og fjölbreytilega náttúru. 
Stærð: 47.000 hektarar. 
Er að mestu innan Landmannaafréttar en að sunnan innan Laufaleita (afréttar Rangvellinga). 
Náttúruvernd ríkisins sér um að setja umgengnisreglur og útvegar landverði til að sjá um að þeim sé framfylgt.  Margar leiðir liggja um friðlandið en þjónustusvæði eru þrjú og utan þeirra er bannað að gista.  Þetta eru Landmannalaugar, Landmannahellir og Hrafntinnusker (síðastnefnt fyrir göngufólk, eingöngu).

Frostastaðaháls: Háls sem Fjallabaksleið nyrðri liggur um, á milli Frostastaðavatns og Jarðfallsins.  Þar sem vegurinn liggur hæðst á hálsinum er vinsæll útsýnisstaður.  Hálsinn er eitt helsta snjóskaflasvæðið þegar kemur að því að opna leiðir inn í Landmannalaugar á vorin.
Fyrrum var farið neðar yfir hálsinn og hraunin í Jarðfallinu þrædd.  Lítið er um slíkar torfærur núorðið, en Frostastaðaháls hefur í gegnum tíðina farið illa vegna torfæruaksturs.

Frostastaðahraun:  Efnis- og umfangslítið hraun norðan Frostastaðavatns, við gatnamót Dómadalsleiðar og Fjallabaksleiðar nyrðri.  Rann um 1480 úr upptökum milli Ljótapolls og Norðurnáms.

Frostastaðavatn Gott veiðivatn. Stærsta stöðuvatnið á framvatnasvæðinu, 225 hektarar. 
Jafnframt ber mest á því, þar sem það liggur opið fyrir helstu umferðaræðum svæðisins, rétt norðvestan Landmannalauga. 
Einkum nýtur það sín vel ofan af Frostastaðahálsi.  Einkennandi fyrir vatnið er mosavaxin eyja og skammt þaðan í frá Námshraunið sem rann árið 1480 út í vatnið. Yfirborð vatnsins er að jafnaði 572 m. y. s. en er breytilegt eftir árferði. 
Vatnið er allsstaðar grunnt, algengt dýpi er 4- 6 m.  Þetta er, vinsælasta bleikju-veiðivatnið á svæðinu, enda mikið af bleikju, þó hún taki ekki alltaf vel.  Hún er búin að útrýma urriðanum og hefur tilhneygingu til að fjölga sér um of (líkt og í öðrum vötnum í grenndinni, þar sem bleikju var sleppt í), en árviss grisjun heldur stofninum þokkalegum.  Hornsíli eru líka í vatninu.
Veiðileifi seld í Landmannalaugum og Landmannahelli.

upp

 G

Grákolla:Sand- og vikurfell með strjálum gróðri, norðan Frostastaðavatns, 736 m.y.s.  Dómadalsleið liggur meðfram henni.

Grænagil:  Gil milli Bláhnúks og Laugahrauns.  Vinsæl gönguleið í næsta nágrenni Landmannalauga.  Nafnið kemur frá grænum lit líparítsins neðst í Bláhnúki, fremst í gilinu.

Grænahlíð: Lágur fjallhryggur (792 m.y.s.) syðst á Fitjum, þar sem afleggjarinn til Hrafntinnuskers liggur af Dómadalsleiðinni og upp með Grænuhlíð "bakatil" Meirihlutinn er gróinn (græn), þó ekki þéttum gróðri.  Auðgengin en ómerkt og fáfarin.

Grænavatn:  (sjá Sauðafellsvatn)

 H

Hald:  Gamall ferjustaður í Tungnaá, rétt áður en hún rennur í Þjórsá.  Bílakláfur var settur örlitlu ofar árið 1964 og brú árið 2002.  Eldri mannvirkin tengdust einkum fjárflutningum (fénu var haldið þar), en brúin er vegna virkjunarframkvæmda við Búðarháls.

Hattur:  Klettastapi inni í Jökulgili, 910 m.y.s. Vinsæll viðkomustaður (enda stórbrotið umhverfi) á ómerktri en frekar greinilegri, nokkuð algengri gönguleið.

Hattver:  Mesta gróðursvæðið inni í Jökulgili.  Undir Hatti og nærri Uppgönguhrygg, eina færa staðnum upp úr gilinu þeim megin.  N.k. "umferðarmiðstöð" þeirra sem smala Jökulgilið.

Háalda: Eitt af hærri fjöllunum í nágrenni Landmannalauga (1089 m.y.s.) og hluti af vinsælli en langri dags-gönguleið, svolítið brött.  Af henni er afar víðsýnt en nærumhverfið er líka fallegt, m.a. Höfðavatn.

Hábarmur: Dökkleitur fjallaveggur (þó úr líparíti sé) sem gnæfir yfir Jökulgilinu, frá Landmannalaugum séð, 1192 m.y.s. Hábarmur liggur í áframhaldandi boga Barms, sem ber hve gleggst vitni um barm Torfajökulsöskjunnar.  Þó er Hábarmur talinn yngri en Barmur, eða u.þ.b.390.000 ára. Þrekvirki er að ganga á hann, en samt möguleiki ef tími, heilsa og veður leyfa.

Háskerðingur:  Efsti tindur Reykjafjalla, gróðurvana og umvafinn fönn.  Gúll úr súru bergi, myndaður undir jökli. Vinsæll útúrdúr á Laugavegsgöngu, enda hæðsti punktur svæðisins með útsýni í allar áttir (1281 m.y.s.).  Ganga þarf yfir jökul og geta sprungur verið varasamar.  Þegar þetta er ritað er væntanlega búið að koma fyrir GPS-miðunartæki á Háskerðingi.

Háuhverir:  Hverir ofan Jökulgils, austan í Reykjafjöllum.

Hekla:  Landsins frægasta eldfjall, enda duglegt að minna á sig.  Síðan 1947 hefur hún gosið fimm sinnum en meðal hraunmagn hefur ekki verið "nema" einn ferkílómetri.  Fyrr á öldum leið lengra á milli gosa en þá voru þau öflugri og ollu stundum miklu tjóni og dauða, enda stundum verið orðuð við anddyri Helvítis.  Hekla er sífellt vinsælli til gönguferða, enda frægt fjall með frábæru útsýni (núverandi toppur er 1491 m.y.s.) og tiltölulega auðvelt að komast upp á réttu stöðunum, þó leiðin sé löng.

upp

Hellisfjall: Lágt móbergsfjall (751 m.y.s.) sunnan Löðmundar.  Sunnan í því er hellirinn sem gefur því nafn sitt, ásamt ferðamannaaðstöðunni, sem einnig er kennd við hellinn.  Fjallið er að mestu gróið, með skemmtilegum klettamyndunum innanum.  Það er auðvelt að ganga um það og vegna nálægðar sinnar við ferðamannamiðstöðina, nýtur það nokkurra vinsælda sem slíkt.  Merktar gönguleiðir eru þó engar.

Helliskvísl:  Kvísl sem rennur framhjá Landmannahelli og hefur nafn sitt af honum.  Aðal vatnsmagn kvíslarinnar er úr Klukkugilskvísl en undir þessu nafni rennur hún fyrst frá þeim stað hvar úrrennsli Löðmundarvatns kemur í hana.  Aka þarf yfir kvísl þessa á vaði, sé komið að Landmannahelli vestanfrá.  Kvíslin hripar niður í Tungnaárhraun austan Valafells.
Árið 1913 stíflaði Lambafitjahraun rennsli kvíslarinnar og hún varð að finna sér annan farveg með gljúpari botni.  Gamli farvegurinn var orðinn svo þéttur af framburði kvíslarinnar, að hún náði stundum að renna út í Tungnaá.  Það er misjafnt eftir vatnsmagni Helliskvíslar, hve löng hún skuli teljast, 15 - 20 km. er algengast.

Herbjarnarfell:  Að Löðmundi undanskildum er Herbjarnarfell hæðsta fjallið norðan til á afréttinum, 935 m.y.s. Það er algróið og reglulegt í laginu, með stöðuvötn á báða bóga (Herbjarnarfellsvatn og Hrafnabjargavatn).  Bratt en auðgengið, ómerkt og sjaldgengið.

Herbjarnarfellsvatn:  U.þ.b. 75 hektara stöðuvatn í grasi vaxinni kvos milli Löðmundar og Herbjarnarfells, í heldur meiri hæð en nálæg stöðuvötn, eða 625 m. y. s.  Því miður hefur óskipuleg umferð vélknúinna ökutækja spillt umhverfinu mjög.  Í vatninu eru urriðar, ekki stórir en vel ætir.

Hestalda:  871 m.y.s. Tiltölulega ungur fjallhryggur úr smágerðu svörtu og brúnu móbergi. Hann liggur í áframhaldandi norðaustur-stefnu af Heklu. Gróður er enginn.  Hægt er að ganga á Hestöldu, helst eftir hryggnum norðaustanfrá, þar sem hart er undir fæti, en fáir leggja þangað leið sína.

Hnausapollur:  (sjá Bláhylur)

Hnausar:  Ofnotað örnefni.
1. Fjallaröð austan Eskihlíðarvatns. 737 m.y.s. hæðst.  Efniviður: móberg og miklar sandöldur.  Gróður: sumir alveg gróðurlausir, aðrir með dálitlum mosa.  Auðvelt er að ganga á þá en það gera ekki margir. 
2.  Fjallaþyrping lítið eitt suðaustar, sjá "Þjóhnappar". 
3. Austan Þjóhnappa, norðan Tjörvafells eru Hnausarnir sem Hnausapollur (Bláhylur, Litla-Víti, Tjörvafellspollur) er í.  Aðallega er þarna um einn "Hnaus" að ræða, 759 m.y.s. auðgenginn og er nokkuð vinsælt að ganga á hann af bílastæðinu á barmbrúninni.  Gróður: drjúg mosaslikja um hann ofanverðann.  Gígurinn myndaðist fyrir u.þ.b. 1.130 árum í stuttu sprengivirku þeytigosi. 
4. Milli Torfajökuls og Jökulgils.  904 m.y.s. Líparít. Þarna er hægt að ganga úr gilinu upp á jökulinn.

Hófsvað:  Vað á Tungnaá sem stundum var hægt að skrönglast yfir, eftir krókaleiðum á stórum jeppum til Veiðivatna.  Guðmundur Jónasson fann þetta vað árið 1950.  Eftir að Tungnaá var brúuð notar enginn þetta hættulega vað.

Hrafnabjargavatn: Næststærsta vatn framafréttarins (ásamt Eskihlíðarvatni), 175 hektarar. Yfirborð þess er um 550 m. y. s. hvar það liggur umkringt sandsléttu milli Hrafnabjarga, Dyngja og Herbjarnarfells. Líkt og mörg önnur vötn á þessum slóðum er það ýmist hrægrunnt eða hyldjúpt.  Það á það líka sameiginlegt með fleiri vötnum að í það var sett bleikja, sem svo fjölgaði sér óhóflega, þannig að nú eru eintóm örkóð í vatninu.

upp

Hrafnabjörg:  Úfinn, vindsorfinn, nær gróðurlaus móbergshryggur sem nær í 895 m.y.s.  Hann fylgir hinni dæmigerðu NA-SV stefnu hins eldvirka Íslands.  Hér og þar er hægt að klöngrast upp innan um athyglisverðar klettamyndanir en það eru engar merkingar.  Vestan við Hrafnabjörg er Lambafitjahraun og austan megin er Hrafnabjargavatn.

Hrafntinnuhraun: Þetta þykka og hrafntinnuríka hraun kom upp um einn aðalgíg fyrir um 1.200 árum.  Flatarmálið er ekki mikið en rúmmálið er um 0.15 km2.  Það er á milli Hrafntinnuskers og Reykjadala

Hrafntinnusker:  Sker þýddi fyrrum ekki bara hólma í sjó, heldur líka jörð sem stendur upp úr jökli.  Þannig hefur semsé glitt í Hrafntinnusker (1128 m.y.s.), meðan Torfajökull huldi allt svæðið umhverfis það.  Enn er jökull í Skerinu og undir honum heitir hverir sem hola hann að innan á ýmsa lund. Aldur Hrafntinnuskers er u.þ.b.8000 -8700 ár og það myndaðist í eldgosahrinu, upphafsgosið með basalti og svo kom upp seig, súr kvika.  Gróður er enginn, nema í kringum nærliggjandi hveri.  Vinsælt göngusvæði, nálægt Laugaveginum og sæluhúsi, enda nóg fyrir augað, bæði nær og fjær.
sími 586-2533, 854-9296 www.fi.is

Hrauneyjafossvirkjun: Gangsett 1981. Afl: 210 MW (landsins næstöflugasta virkjun).  Stífla: 15 m. há, 3 km. löng.  Uppistöðulón  9 km2. Aðrennslisskurður 1 km. Eigandi: Landsvirkjun.

Hrauneyjalón:  Hið 9 km2 stóra uppistöðulón Hrauneyjafossvirkjunar í Tungnaá.

Hrauneyjar:
1.Hólmar og eyjar í Tungnaá, þar sem nú er Hrauneyjalón. 

2.Nú til dags er venjulega átt við hálendismiðstöðina við Sprengisandsveg F26, þegar talað er um að fara í Hrauneyjar. 
Þar er aðal þjónustumiðstöð (veitingar, gisting, upplýsingar, eldsneyti o.flr.) fyrir ferðamennsku á suður-hálendinu, þ.á m. Fjallabakssvæðið og að hluta til líka fyrir starfsmenn virkjananna.
sími 487-7782 / 487-7750 www.hrauneyjar.is

Húfa: (nýyrði) Dökkt fjall, reglulegt í laginu, vestan Frostastaðavatns.  Toppur þess er 870 m.y.s.  Húfa er að miklu leiti hulin þunnri, viðkvæmri gróðurþekju.  Auðgengin en ómerkt og fáfarin.

Höfðavatn: Það vatna svæðisins sem er í lang mestri hæð, eða í u.þ.b. 800 m. y. s.,  á milli Háöldu og Stórhöfða.  Vatnið slapp við bleikjusleppingafaraldur sjöunda áratugs síðustu aldar, því það er svo erfitt að komast að því.  Það er með öllu fisklaust.  Stærð þess er u.þ.b. 35 hektarar og dýpt hefur líklega aldrei verið mæld.  Litur þess er sérkennilega blámóðulegur.

upp

 I

 Í

 J

Jökulgil:   Mikið gil sem liggur í hálfhring frá Landmannalaugum suður og inn í hálendið með Barm, Hábarm, Torfajökul og Kaldaklofsjöll á ytri væng (þykir vera skírasta dæmið um jaðar öskju Torfajökulseldstöðvarinnar). 
Brattar líparítskriður allt um kring og á botni þess flæmist Jökulgilskvíslinn frá einni hlið til annarrar. Fyrst smalað 1852, vegna hræðslu við útilegumenn, sem svo reyndust ekki vera til þar. 
Talið er að Torfi í Klofa hafi búið þar með sínu fólki í einangrun meðan plágan mikla herjaði á landið í lok fimmtándu aldar.  Lengd u.þ.b. 30 km.
Hægt er að lesa meira um Jökulgilið í þessum lista undir eftirfarandi heitum: Hattver, Hnausar, Litla-Hamragil, Stóra-Hamragil, Sveinsgil, Uppgönguhryggur og Þrengsli.

Jökulgilskvísl:  Kvíslin sem rennur eftir Jökulgili.  Á upptök sín í Torfajökli, Kaldaklofsfjöllum og Reykjafjöllum, rennur framhjá Landmannalaugum, hvar hún fer að breiða vel úr sér, og út í Tungnaá hjá Norðurnámshrauni. Lengd á að giska 45 km. 
Var brúuð við Norðurnámshraun árið 1966. Áður var farið yfir hana nær Landmannalaugum.  Vatnsmagn mjög háð veðri og árstímum.  Stundum þónokkur farartálmi.

Jökultungur:  Fjallarönd úr líparíti, sem ásamt Ljósártungum, þykja sýna suðurhluta Torfajökulsöskjunnar.  Aldur og efniviður er eitthvað í stíl við Barm, sem er gleggsti vitnisburður öskjunnar.  Hæstar eru Jökultungur 944 m.y.s. Laugavegurinn liggur brattur niður þær.  Auðvelt er að ganga ofan á þeim.  Þær eru berar að ofan en gróið svæði undir þeim.

 K

Kaldaklof:  Gil sem vatn úr Kaldaklofsfjöllum grefur og rennur um ofan í Jökulgil og er um leið ein upphafskvísla Jökulgilskvíslarinnar.  Rétt norðan Kaldaklofs eru Háuhverir.

KaldaklofsfjöllHáskerðingur (1281 m.) og Skerínef (1259 m.y.s.) eru hæstu tindar Kaldaklofsfjalla, og um leið alls nærliggjandi svæðis.  Fjöllin eru rétt vestan við Torfajökul en hann og jökull Kaldaklofsfjalla voru einn og sami jökullinn fram á síðustu öld.  Erfitt en afar gefandi göngusvæði.

Kaldaklofsjökull: um 5 ferkílómetrar

Kirkjufell:  964 m.y.s. aldur: u.þ.b. 50.000 - 90.000 ár, myndun/efniviður: líparítstapi úr peralkalísku bergi, gaus undir jökli og náði uppúr honum.  Gróður: enginn nema rétt neðst í skriðunum. 
Erfitt að ganga á það en þó hægt, sé farið á réttum stað.

Kirkjufellsvatn: U.þ.b. 150 hektara stöðuvatn á mörkum Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, með yfirborð 573 m. y. s. Vatnið er ofsetið bleikju, sem hefur aðgang að Tungnaá um Kirkjufellsós, en virðist samt halda sig á sömu slóðum og þróa með sér eigið útlit.  Vatnið er djúpt og fjöllin í kring eru há.

Kjaftalda: sjá Reykjakollur

Klofningar: Svæði sem Dómadalsleið liggur um sunnan Valahnúka.  Ýmist notað um alla leiðina frá Sölvahrauni til Helliskvíslar eða aðeins um leiðina milli Sölvahrauns og Nýjahrauns.

Klukkugil:  Djúpt gil milli Mógilshöfðanna, Stórhöfða og Litlhöfða.

Klukkugilsfitjar: sjá Fitjar

Klukkugilskvísl:  Á upptök sín sunnan undir Háöldu, rennur um Klukkugil niður á Klukkugilsfitjar og sameinast Helliskvísl (skiptir um nafn) á móts við úrrennsli úr Löðmundarvatni.  Lengd u.þ.b. 25 km.  Niðri á fitjunum liggur Dómadalsleiðin og þarf þar að fara yfir mörg vöð Klukkugilskvíslar.

Kringla:  Mesta gróðursvæði afréttarins.  Þetta heiti er notað um flatlendið umhverfis Löngusátu (sbr. landakort) en einnig fjöllin umhverfis það, þ.á m. Sátubarn, Sauðleysur, Löðmund, Dyngjur og Lifrafjöll og jafnvel vestur að Hrafnabjörgum og austur að Tjörvafelli.

Krakatindur:  Þó risafjöllin Hekla og Rauðufossafjöll séu sitthvoru megin við Krakatind með sína 958 m.y.s.(1.025 segja sumir), þá er hann áberandi þar sem hann rís stakur og tindóttur upp úr hraunbreiðunum.  Jeppaslóði sem tengir saman Dómadalsleið og Fjallabaksleið syðri, liggur meðfram tindinum. Hægt er að ganga upp á milli efstu dranga hans en ekki upp á þá. Gróður er mjög lítill - einkum mosi.

Krókagiljabrún: Brún n.k. lítillar hásléttu neðan RauðufossafjallaDómadalsleið liggur að hluta meðfram henni.  Nýjahraun á upptök sín í brún þessari og telst til Heklueldstöðvarinnar.

Krókslón (Sigöldulón):  Hið 14 km2 uppistöðulón Sigölduvirkjunar í Tungnaá.

Kýlingar:  Þegar talað er um Stóra- og Litla -Kýling í einni andrá.Þá er gjarnan líka átt við gróðursvæðið umhverfis þá (eitt hið mesta á afréttinum) og jafnvel vötnin líka.

Kýlingavötn (Kýlingar): Vötn sem eru samtengd Tungnaá og er jökulvatnið mjög gruggugt.  Slétta, mynduð af jökulframburði árinnar, er að hluta til grösugar grundir og að hluta til botn vatnanna, (bæði vötnin saman 250-300 hektarar) sem eru svo grunn að víða er vætt yfir þau. Yfirborð er 572 m. y. s.  Smábleikjur Tungnaár halda sig stundum í vötnunum.

Kýlingaskarð:  Áður en Jökulgilskvíslin var brúuð, árið 1966, lá leiðin frá Landmannalaugum austureftir um Kýlingaskarð.  Það liggur milli Norður-Barms og fjalls sem heitir líklegast Aldan.  Vélknúin umferð um skarðið er nú bönnuð en um það liggur reiðleið.

upp

 L

Lambafit:  Gróðurreitur sem var á milli Hrafnabjarga og Valagjár en fór allur undir hraun árið 1913.

Lambafitjahraun: Gossprunga milli Krókagiljabrúnar og Hrafnabjarga, tilheyrandi Heklueldstöðinni, dældi árið 1913 upp það miklu hraunmagni að það nægði til að kaffæra Lambafit og stífla Helliskvíslina.

Landmannaafréttur:  Flest á þessum lista er innan hans, en líka mikið að auki, norðan Tungnaár.  Tilvitnun úr Sunnlenskum byggðum V: 
"Takmörk Landmannaafréttar eru þessi: Úr Ófærugili í Tröllkonuhlaup, eftir Þjórsá í Tungnaá, eftir Tungnaá í Blautukvísl, eftir Blautukvísl í Blautukvíslarbotna, þaðan í Þóristind og þaðan sjónhending í Þveröldu við norðausturbotn Þórisvatns, úr Þveröldu í Svartakamb þar sem hann er hæstur, þaðan þvert í Tungnaá, síðan eftir Tungnaá í Kirkjufellsós og eftir honum í Kirkjufellsvatn, þaðan eftir Hábarmi í Torfajökul þar sem hann er hæstur, frá Torfajökli í upptök syðri kvíslar Markarfljóts, þaðan í Krakatind og þaðan í Ófærugil. Þetta er gífurlega víðáttumikill afréttur, að miklum hluta háfjöll og reginöræfi og víða langt á milli bithaga og æði torfært sums staðar, enda stendur fyrsta leit yfir í heila viku". 

Nafnið helgast af því að þetta var afréttur Landmanna, en frá því 1892 hafa Holtamenn verið með hann með þeim. Reyndar er nýbúið að sameina þessar sveitir í Holt-og Landsveit og svo aftur í Rangárþing ytra, ásamt Rangárvöllum.  Þannig séð nær afrétturinn frá norðurbotni Þórisvatns niður að Mýrdals- og Tindfjallajöklum, en Holta- og Landmenn halda samt áfram að smala sinn afrétt og Rangvellingar sínar Laufaleitir.

Landmannahellir:  Hellisskúti í Hellisfjalli.  Nafnið nær nú yfir allt þjónustusvæði ferðamanna og fjallmanna, sem þar er risið.  Þarna var alltaf ein aðal miðstöð fjallmanna en framanaf var hellirinn eina skjólið.  Troða mátti 70 -80 hestum í hann og menn voru í n.k. afhelli eða í skúta sem þeir hlóðu við hellismunnann. Hross: Kr. 300,- nóttin. Hey eftir þörfum í umsjón skálavarða.Nauðsynlegt er að panta í hestagerðin.
Frá því að hætt var að geyma fé í Sauðleysum, þangað til girt var í kringum Sátu, 1966, var fé geymt í grjóthlöðnum aðhöldum austan hellisins.  Fyrsta húsið var sæluhús sem reis á landssjóðs kostnað árið 1907.  Sveitarfélagið og veiðifélagið eiga stærsta hús staðarins, sem er að hálfu fyrir hesta og að hálfu fyrir fólk (23 manns), og reis 1974. 

Fólk úr sveitarfélaginu, Hellismenn, reka ferðaþjónustu í því og tveimur nýrri húsum. Í einu húsi býr sá er sinnir skálavörslu, veiðivörslu og upplýsingaþjónustu. Lítið salernis- og sturtuhús er þar einnig. Auk alls þessa eru 3 aðrir mannabústaðir á svæðinu( 24-, 12- og 28-manna hús).

Ágæt tjaldstæði eru á bökkum Helliskvíslar við Landmannahelli. Hreinlætisaðstaða með 2 vatnssalernum og sturtu er við tjaldsvæðið. Gisting á tjaldstæðum: Kr. 500,- á mann nóttin (sama verð fyrir húsbíla, fellihýsi og tjaldvagna). Frítt fyrir 12 ára og yngri. Sturta: Kr. 200 á mann.
sími 893-8407, info@landmannahellir.is

upp

Landmannaleið: Dómadalsleið, F225
Það er á reiki hvað nákvæmlega skuli kallast Landmannaleið.  Sumir segja hana vera það sama og Dómadalsleið, þ.e. F 225, en algengara verður þó að teljast að heitið nái yfir þá leið og svo áfram austur til byggða í Skaftártungum.  Það er og nær því sem sést í eldri heimildum.

Landmannalaugar
Hálf þessi heimasíða fjallar um Landmannalaugar.  Hér kemur samt stuttaraleg samantekt:  Sérlega athyglisverður staður útfrá jarðfræðilegu samhengi en einnig hvað varðar gróðurfar og sögu. 
Það sem varðar flesta þó mestu er það hversu fallegt þar er.  Hvergi annarsstaðar í náttúrunni er þvílíkt samansafn af litum og formum.  Þessi staðreynd ásamt því að þar er hin náttúrulega, þægilega og fræga laug, hafa gert staðinn að fjölmennustu ferðamannaslóð á hálendi Íslands. 

Það er tiltölulega auðvelt að komast þangað á sumrin, hvort sem er á góðum bíl eða með áætlunarrútu, sem gengur þangað.  Fólk kemur hjólandi, ríðandi (einnig er hægt að fara í reiðtúra út frá staðnum) og gangandi, en landsins vinsælasta hálendisgönguleið, Laugavegurinn endar/byrjar þar.  Mikið er um spennandi gönguleiðir við flestra hæfi, með Landmannalaugar sem miðpunkt. 
Þar er fjallaskáli af stærri gerðinni, tjaldstæði, nýtísku hreinlætisaðstaða, upplýsingaþjónusta og aðsetur landvarðar. 
Rúta, innréttuð sem búð, sér ferðamanninum fyrir flestum nauðsynjavarningi en ekki þó bílaeldsneyti eða aðra bifreiðaþjónustu.  Þrátt fyrir mannmergðina í Landmannalaugum, þarf ekki að fara langt útfyrir tjaldstæðið til að vera einn í heiminum í friðsæld og fegurð.  En í lauginni er alltaf fullt af fólki, svo minnir á fjölþjóðlegar ráðstefnur.

lesa meira

Langasáta:  Algróið fell, 792 m.y.s. suður af Landmannahelli og Sátu. Auðgengin en ómerkt og fáfarin.  Allt í kringum hana eru vegir, vötn og flöt gróðurlendi.

Laufafell:  Líparítstapi úr peralkalísku bergi, gaus undir jökli.  Gróður er til muna minni en nafnið gefur til kynna.  Fjallið er á mörkum friðlandsins og utan Landmannaafréttar en er svipmikið og sést vel af því svæði sem hér er um fjallað.  Við rætur þess kemur jeppaslóði frá Dómadalsleið inn á Fjallabaksleið syðri.  Markarfljót rennur meðfram fjallinu. 1164 m.y.s. aldur: u.þ.b. 50.000 - 90.000 ár

Laufdalsvatn:  Þetta er minnsta og afskekktasta veiðivatn framafréttarins, falið í Dyngjum, norðan Löðmundar.  Yfirborð u.þ.b. 540 m. y. s., 9 hektarar að stærð. Vatnið var eitt af hinum ofsetnu bleikjuvötnum svæðisins en grisjunarátak hefur skilað árangri, svo að nú er þar ágætis matfiskur.

Laugahraun:  Í jaðri þessa hrauns koma upp hinar frægu heitu lindir Landmannalauga, með öllu tilheyrandi ferðamannafári.  Upphafskafli Laugavegarins liggur þaðan yfir hraunið.  Þetta dökka, grófa hraun (rýólít með hrafntinnuslikju) kom upp í öxl Brennisteinsöldu árið 1480.

Laugavegur:  Svo er landsins vinsælasti hálendis-göngustígur nefndur.  Hann liggur um 54 km. leið milli Landmannalauga og Þórsmerkur.  Vinsældir sínar á hann að þakka því hversu fagurt og fjölbreytt landslag hann liggur um, en einnig því að búið er að útbúa hann með gististöðum, brúm og merkingum.

  Frá Landmannalaugum til fyrsta fjallaskálans eru 11 km., þaðan til næsta skála 12 km., svo 16 til næsta og að lokum eru 15 km. þaðan til Þórsmerkur. 
Þetta segir ekki söguna alla, því Dagsleiðirnar liggja um misjafnlega erfitt land og eru ýmist upp eða niður.  Venjulega er mælt með bilið milli skála sé passleg dagsferð, en miklir göngugarpar geta sleppt úr skála.  Svo er heill hellingur af spennandi gönguleiðum sem liggja útfyrir aðal leiðina (mörgum þeirra sem eru í grennd við Landmannalaugar og Hrafntinnusker er lýst á þessari síðu). Þar að auki er til tilbrigði við Laugaveginn, sunnan svæðisins sem þessi síða fjallar um. 

Þeir sem ætla að gista í skálunum verða að panta pláss tímanlega (sími 568 2533) en ekki þarf að panta pláss á tjaldstæðunum. 
Ferðamenn þurf að vita hvernig útbúnað þarf fyrir svona göngu og fara eftir því.  Veður geta orðið slæm.  Ekki má leggja í hann, öðruvísi en að láta vita af því fyrst.

Lifrafjallavatn:  Fagurblátt 75 hektara stórt vatn sem er falið milli grænna hlíða Lifrafjalla, skammt frá alfaraleið en ekki fyrir akstur vélknúinna ökutækja.  Af þeim völdum er ekki lengur fiskur í vatninu, vegna þess að sleppiurriðinn sem böðlast var með þangað, hefur ekki skilyrði til að fjölga sér.Yfirborð 596 m. y. s.

upp

Lifrafjöll:  Vel gróin fjallaþyrping, 7-800 m. há, norðan Dómadals.  Milli fjallanna er Lifrafjallavatn.  Fjöllin eru auðgengin víða en ómerkt og næsta fáfarin miðað við hvar þau eru stödd og hve fagurt þar er.

Litla-Brandsgil:  Önnur grein hins mikla Brandsgils.  Hægt er að ganga eftir Litla-Brandsgili frá rótum Bláhnúks alla leið upp á Skalla.  Lækur rennur eftir gilinu.

Litla-Hamragil:  Eitt af innstu afgiljum Jökulgilsins, en lækir þessara gilja mynda upphaf Jökulgilskvíslarinnar.  Þetta gil er ekki minna en Stóra-Hamragil.  Ofan þess eru Háuhverir.

Litla-Melfell:  Stakt fell, rétt norðan undir Dyngjum, 613 m.y.s. 130.000 - 180.000ár, myndun/efniviður: basaltískt andesítberg undan jökli.

Litla-Sáta:  Sjá Sáta.

Litlavíti: sjá Bláhylur (Hnausapollur, Tjörvafellspollur)

Litlhöfði: Annar Mógilshöfða, sá stærri, þrátt fyrir nafnið,1103 m.y.s. Grónar mosatorfur eru á milli gilskorninga. Víða er auðgengið en fremur langar og brattar leiðir, ómerkt og fáfarið en frábært útsýni.  Það á líka við um hæst liggjandi jeppaslóð svæðisins, sem er ofan Pokahryggjar í öxl Litlhöfða.  Fjallið myndaðist undir jökli fyrir 130.000 - 180.000 árum (basaltískt andesítberg).

Litli-Kýlingur:  Lítið fjall, rúml. 700 m.y.s. en vel sýnilegt, hvar það stendur iðjagrænt umflotið Kýlingavötnum og speglar sig á góðviðrisdögum. Auðgenginn að öðru leiti en því að hann er umflotinn vatni, ómerkur og fáfarinn.

Ljósártungur:  Fjallarönd úr líparíti, sem ásamt Jökultungum, þykja sýna suðurhluta Torfajökulsöskjunnar.  Aldur og efniviður er eitthvað í stíl við Barm, sem er gleggsti vitnisburður öskjunnar.  Hæstar eru Ljósártungur 1075 m.y.s.  Ljós, ávöl og gróðursnauð fjöll.

Ljótipollur (fornt heiti er Stóravíti):  Gjóskugígur þessi myndaðist árið 1480.  Svo fylltist hann af vatni og smámsaman af jarðefnum, þannig að vatnið er nú ekki nema 14 metra djúpt.Yfirborð þess er u.þ.b. 575 m. y. s.
Jeppa/rútuslóði liggur upp á gígbrúnina og er þar einn helsti viðkomustaður ferðafólks á afréttinum.  Þaðan er útsýni fagurt, en einkum eru það andstæður hinna eldrauðu gígbarma og grængolandi vatns sem heilla, ásamt tilkomumikilli stærð gígsins. 
Stangveiðimenn eiga þangað erindi, því þetta er vinsælasta urriðavatn svæðisins.  Stærð vatnsins er u.þ.b. 45 hektarar.

Gott veiðivatn. Veiðileifi seld í Landmannalaugum og Landmannahelli.

Löðmundarvatn:  Stöðuvatn sunnan undir Löðmundi.  Það á það sameiginlegt með mörgum vötnum svæðisins að vera að hluta til grunnt og að hluta til vel djúpt, auk þess sem það fór ekki varhluta af bleikjusleppingum, sem leiddu af sér offjölgun. 

Árangursrík áratugs grisjunarvinna gerði það að verkum að örkóðin eru nú orðin að ágætis matfiski og er Löðmundarvatn nú að verða að einu af vinsælli stangveiðivötnum svæðisins.  Aðgengi er auðvelt, umhverfi fallegt og nálægð við Landmannahelli mikil. Yfirborð 590 m. y. s. og stærð 90 hektarar.
Gott veiðivatn. Veiðileifi seld í Landmannalaugum og Landmannahelli.

Löðmundur Hæsta og rismesta fjallið norðan háfjallasvæðisins, 1051 m.y.s., setur mikinn svip á umhverfi sitt, grasi gróið, klettótt og tindótt.  Víða er hægt að ganga á fjallið (hvergi merktir stígar) og er útsýni þaðan stórkostlegt en töluverðar líkur eru á að lenda í þoku, sem fjallið er oft löðrandi í. Þetta móbergsfjall er rúmlega 50.000. ára.  Sjá Egilsgil, Löðmundarvatn og Skál.

upp

 M

Markarfljót:  Eitt af meiri fljótum Suðurlands (85 m3/sek. að meðaltali, niðri í byggð, við Krosssand), 100 km. að lengd.  Upptök sín á það í Austurdölum.  Sumir staðsetja þau aðeins ofar, af mikilli nákvæmni, sem úrrennslið úr Stórahver.  Jeppaslóðar liggja þannig að víða þarf að fara yfir "fljótið" á vaði, en það er auðvelt innan þess svæðis sem er til umfjöllunar á heimasíðu þessari.  Eftir því sem neðar dregur verður fljótið að meira fljóti og grefur m.a. mikilfengleg gljúfur, sem gönguhrólfar Laugavegsins geta skoðað.

MógilshöfðarLitlhöfði ,1103 m. og Stórhöfði,rúml. 1020 m.y.s., aðskildir með Klukkugili. Þessi fjöll eru norðurbrún Torfajökulsfjallaklasans og norðan undir þeim liggja Fitjarnar og Dómadalur
Þessi gilskornu, mosavöxnu fjöll eru áberandi fyrir vegfarendur Dómadalsleiðar.  Víða er auðgengið en fremur langar og brattar leiðir, ómerkt og fáfarið en frábært útsýni.  Það á líka við um hæst liggjandi jeppaslóð svæðisins, sem er ofan Pokahryggjar í öxl Litlhöfða. Fjöllin mynduðust undir jökli fyrir 130.000 - 180.000 árum (basaltískt andesítberg). 

 N

Námshraun:  Eitt ungu hraunanna, frá 1480.  Það kom upp um eitt eða tvo eldvörp neðarlega í hlíðum Suðurnáms og rann annarsvegar til vesturs ofan í Frostastaðavatn og hinsvegar til austurs að Jökulgilskvísl.  Þykkt hraunið (dasít með hrafntinnuslikju), þekur ekki stórt svæði en rúmmál þess er 0.05 km3.

Námskvísl: Samansafn vatns úr fjölmörgum giljum milli Brennisteinsöldu og Háöldu, m.a. úr Vondugiljum.  Rennur meðfram Laugahrauni og út í Jökulgilskvísl, rétt hjá Landmannalaugum
Þar þarf að fara yfir hana á vaði, vilji fólk komast alla leið inn í Laugar á ökutækjum sínum.

Norður-Barmur Stundum er aðeins átt við neðsta hluta Barms, þann sem næstur er Landmannalaugum. 
Annars:  Bogadregin fjallarönd sem sýnir hve gleggst útlínur Torfajökulsöskjunnar.  Þessi líparíthryggur er líka með eldri fjöllum svæðisins, eða eldri en 600.000 ára (efri hlutinn u.þ.b. 200.000 ára).  Sunnan undir fjallrananum er Jökulgil.  Hinumegin frá er hægt að ganga upp og fá góða yfirsýn yfir Landmannalaugar og nágrenni.  Sólgular hlíðar fjallsins eru eitt vinsælasta myndefni Landmannalaugasvæðisins. Hæðsti punktur u.þ.b. 900 m.y.s.

Norðurnámshraun:  Ísúrt andesíthraun, blandað basalti (blandhraun), frá því 1480. Upptök þess eru mestmegnis í gígnum Stúti, við Frostastaðaháls. Þaðan liggur Fjallabaksleið nyrðri í hraunjaðrinum til brúarinnar yfir Jökulgilskvísl.  Hluti þess jaðars er hinn svonefndi Sólvangur, sem eitt sinn var tjaldstæði en er nú friðaður staður.

Norðurnámur:  Fjallaklasi, 786 m.y.s. miðsvæðis milli Frostastaðavatns, Ljótapolls og Jökulgilskvíslar.  Legu sinnar vegna liggja akvegir, reiðvegir og göngustígar meðfram Norðurnámi og göngustígur upp á hann líka. Gróinn víðast ofantil og að nokkru leyti alveg niður úr, einkum mosi.

Norðurnámsver:  Grasi grónar grundir með lækjarsytrum, utan alfaraleiðar, milli Norðurnáms, Norðurnámshrauns og Tungnaár.

Nýjahraun:  Fyrir u.þ.b. 125 árum kom allnokkuð hraun, Nýjahraun, upp um gíga í Krókagiljaöldu, norðan Krakatinds.

upp

 O

 Ó

 P

Pokahryggur:  Leiðin upp á öxl Mógilshöfða (Litlhöfða), á leiðinni til Hrafntinnuskers eða syðra Fjallabaks.  Sá er þarna ók fyrstur hlóð sandpokum undir dekkin til að hafa nógu breiða braut.  Síðar var þassi braut notuð undir hrafntinnuflutning úr Hrafntinnuhrauni fyrir Þjóðeikhúsið. 
Brekkan er brött og stundum rennur úr henni á vorin.  Fyrir ofan eru oft skaflar frameftir sumri.  Útsýnisstaður góður.

upp

 R

Rauðaskál:  Gígur sá, í Heklueldstöðinni, sem best sést úr alfaraleið.  Er suðvestan undir Hestöldu og hægt að keyra nánast að henni, eftir afleggjaranum að Heklu.  Er rauð, eins og nafnið gefur til kynna. 

Rauðfoss (Rauðufossar):  Rauðufossakvíslin steypist niður á Fitjarnar í Rauðfossi (Rauðufossum), u.þ.b. 60 m. háum.  Breiðir úr sér um rauðleitar klappirnar í fallinu. 
Blasir við af Dómadalsleið en auðvelt er að missa af honum, þegar miklar fannir eru við hann.  Þá er hann svo samlitur þeim.  Auðvelt er að ganga að honum. 
Það er bannað að aka að honum.
Rétt vestar í brúninni sem fossin steypist niður er mikill eldgígur.

Rauðufossafjöll:Áberandi fjallaklasi, dökkleitur, gróðurvana og brattur og hár (hæstu tindar sem hér segir: 1207 m., 1176 m., rúml. 1160 m., 1092 m. og rúml. 1020 m.y.s.).  Ekki ber öllum saman um hvaða eldstöð fjöllin tilheyra, en í seinni tíð hallast menn að Torfajökulseldstöðinni, þannig að þá er þetta útvörður hennar í vestri. 
Fjöllin urðu til fyrir u.þ.b. 50.000 - 90.000 árum, úr móbergi og súrum gosmyndunum (líparítfjöll úr peralkalísku bergi), undir jökli. Var hugsanlega eitt fjall í upphafi, en síðar sorfið í sundur af jökli. 
Hægt er að ganga eftir vissum leiðum upp á fjöllin en það þarf að hafa fyrir því og það gera fáir

Rauðufossakvísl: Uppsprettan er í hlíðum Rauðufossafjalla.  Fellur niður á Fitjarnar í Rauðfossi.  Sameinast Helliskvísl undir Sauðleysum, á sama stað og akvegir skilja til Landmannahellis og Landmannalauga.  Þar er helsta vaðið á Dómadalsleið.  Lengd kvíslar um 15 km.

Reykjadalir:Dalir sunnanundir Mógilshöfðum og Svartakambi. 
Jeppaslóðin til Fjallabaksleiðar syðri liggur meðfram þeim og að hluta til í þeim. 
Það er vel þess virði að yfirgefa farartækið og skoða þetta kraumandi, bullandi svæði, í flestum regnbogans litum. Gróðurtorfur og fossar auka enn á fjölbreytnina.  Öll skilningarvit fá eitthvað við sitt hæfi. 

Sé gengið í Reykjadali snemmsumars, áður en akleiðir opnast, má finna þar manngenga íshella sem myndast þegar hverirnir bræða innan úr snævi fylltum dölunum.  Sá möguleiki er fyrir hendi að þessum stað verði fórnað í þágu stóriðju, því þarna er mikill jarðhiti sem hægt er að virkja.  Slíkt myndi breyta ásýnd svæðisins gífurlega nær og fjær, m.a. frá Laugaveginum séð. 
Stundum er talað um að Reykjadalir séu allt svæðið sem Austurdalir og Vesturdalir spanna.

Reykjafjöll:  Þau rísa, austan Hrafntinnuskers, í 1185 m. og 1163 m.y.s. Fyrir u.þ.b. 200.000 árum eða meir, mynduðust þau úr líparíti og gúlum úr ísúru bergi undir jökli. Austan í þeim eru Háuhverir.  Jökulfannirnar voru fram á síðustu öld samtengdar Torfajökli.

Reykjakollur (Kjaftalda): Lágt fjall eða fell (734 m.y.s.) á mótum Brandsgils og Jökulgils.  Stutt og auðveld leið er fyrir gesti Landmannalauga að Reykjakolli, að skoða hverasvæði.  Þetta er rönd, neðst í hlíðinni sem að Laugum snýr, með hvæsandi smáhverum og lygilegri litaflóru.  Eins er auðvelt að skreppa upp á kollinn til að fá meira útsýni, en það krefst varúðar, svo þunn gróðurþekjan sem hylur meirihluta hans spillist ekki.

upp

 S

Sauðafell: Fyrsta fjallið, sem því nafni má nefna (tæpl. 500 m.y.s.) sem ekið er framhjá þegar ekin er Dómadalsleið af Landvegi.

Sauðafellsvatn:  Vatn nærri Dómadalsleið en sést ekki af veginum og flestir vita ekki af því.  Samt er það u.þ.b. 45 hektarar, Yfirborð 322 m.y.s.  Lengst af fisklaust.

Sauðleysur:  Rismikil fjallaþyrping sen nær allt upp í 900 m.y.s ( 200-350 m. frá grunni sínum).  Á milli fjallanna er Sauðleysuvatn.  Algrónar og fagurgrænar utan ein sem er gróðursnauð og með þverhníptum klettum.  Auðgengar víða en ómerkar og fáfarnar, spennandi göngusvæði. 
Fyrir sauðfjárfellinn, árið 1882, var kindum safnað í grjóthlaðið hald við Sauðleysur en þær eru nokkru vestan við Landmannahelli.

Sauðleysuvatn:  Stöðuvatn umkringt hinum grösugu Sauðleysum. Yfirborð þess er 581 m. y. s., stærðin er u.þ.b. 80 hektarar og dýptin er þónokkur.  Þetta er eitt hinna ofsetnu bleikjuvatna afréttarins.  Grisjun hefur skilað nokkrum árangri en ekki nógum til að gera vatnið að spennandi veiðivatni
Það er bratt niður að vatninu en auðvelt fyrir fótgangandi.

Sáta (Litla-Sáta):    Gegnt Landmannahelli er algróið og formhreint lítið fjall, Sáta (762 m.y.s.).  Brött en auðveld uppgöngu.  Á haustin stunda fjallmenn Sátuhlaup.  Sá sem fljótastur var upp var ekki nema 5 mín. á toppinn. 
Árið 1966 var sett upp stór fjárgirðing umhverfis fjallið og er hún aðal geymslustaður fjár meðan á fjallferð stendur. Vorið 2002 urðu aurskriður í Sátu.

Sátubarn:  Á Fitjum, þar sem beygt er af Dómadalsleið til Hrafntinnuskers, er þetta litla keilulaga fjall (769 m.y.s.)Það er gróið að ofan en sendið að neðan.  Auðgengið en ómerkt og fáfarið.

Sigalda:  Móbergshryggur frá ísöld í tæpl. 600 m.y.s.  Gróður er lítill en hefur aukist vegna landgræðslu.  Tungnaá gróf gljúfur í gegnum ölduna.  Nú rennur hún í túpum ofan í stöðvarhús virkjunar sem er norðan í öldunni.  Hjá Sigöldu var byggð brú yfir Tungnaá árið 1967.  Virkjunin var reist 1973-77.

Sigöldulón (Krókslón): Uppistöðulón Sigölduvirkjunar. 14 km2.

Sigölduvirkjun:  Reist á árunum 1973-77. Gangsett 1977. Afl: 150 MW (landsins þriðja öflugasta virkjun, ásamt Blönduvirkjun). Stífla: 42 m. há og 925 m. löng. Uppistöðulón: 14 km2. Eigandi: Landsvirkjun.

SkalliSúr hraun frá þriðja síðasta hlýskeiði mynduðu þessa gróðurvana hábungu í 989 m. hæð y.s.  Nokkuð vinsæl og yfirleitt vel greinanleg gönguleið liggur utan í Skalla.  Auðvelt er að fara alla leið upp, en þar er frábær útsýnisstaður, einn sá besti yfir Jökulgilið.  Líka er gaman að klöngrast upp á hann úr Litla Brandsgili.

Skál:  Mikil hvilft í Löðmundi, neðan frá Löðmundarvatni og upp á brúnir þar sem fjallið rís hve hæðst.

Sprengisandsleið: sjá F26

Stóra-Brandsgil:  Önnur grein hins mikla Brandsgils.  Hægt er að ganga eftir því, nokkra kílómetra, upp að fossi sem lokar leiðinni.

Stóra-Hamragil:  Eitt af innstu afgiljum Jökulgilsins, en lækir þessara gilja mynda upphaf Jökulgilskvíslarinnar.  Þetta gil er ekki stærra en Litla Hamragil en það er ófært.

Stóra-Melfell:  672 m.y.sGróður: Auðgengið en ómerkt og fáfarið, enda úr alfaraleið

Stóravíti: sjá Ljótipollur

upp

Stórhöfði Annar Mógilshöfða, sá minni, þrátt fyrir nafnið, 1020 m.y.s. Grónar mosatorfur eru á milli gilskorninga. Víða er auðgengið en fremur langar og brattar leiðir, ómerkt og fáfarið en frábært útsýni.
Fjallið myndaðist undir jökli fyrir 130.000 - 180.000 árum (basaltískt andesítberg).  Sunnan við fjallið eru Höfðavatn og Klukkugil.

Stórihver:  Kraftmikill gufu- og goshver ofan Austurdala.  Að sumra mati eru upptök Markarfljóts í honum.  Hann er á miðri hásléttunni milli Landmannalauga og Hrafntinnuskers og er gróðurvinin hjá honum vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Laugaveginn.

Stóri-Kýlingur: Lítið fjall (730 m.y.s.) með miklum og þéttum gróðri, miðað við hálendisfjöll. 
Þetta er austara fjallið við Kýlingavötn.  Það er auðvelt að ganga á það og njóta fagurs útsýnis yfir Tungnaá og hliðarvötn hennar.  Háspennulína skemmir útsýnið nokkuð.  Eitt mastra hennar stendur á Stóra-Kýlingi norðanverðum.

Suður-Barmur:  (Vestur-Barmur) Þetta er syðri barmur Jökulgilsins.  Hann er talinn nokkru yngri en nyrðri barmurinn (450.000 - rúml. 600.000 ára) og jafnvel gæti hann verið hluti öskju innan Torfajökulsöskjunnar.
Efniviður beggja barma er sá sami, þ.e. líparít. Þunn og viðkvæm mosaþekja er sumstaðar ofaná.  Hjá Reykjakolli byrjar óstikuð en víðast greinileg og fremur auðveld gönguleið sem liggur upp á barminn og svo eftir honum að Skalla og Hatti og inn á Laugaveginn ef vill.

Suðurnámur Líparítfjall, fjölbreytilegt að lit og lögun, rís um 340 metra upp af Frostastaðavatni (916 m.y.s.).  Hin hlið þess rammar inn drjúgan hluta sjóndeildarhringsins frá Landmannalaugum. 
Besta návígið við form og liti fjallsins fæst með því að ganga bak við Námshraun, inn í geil sem klýfur fjallið að hluta.  Þar má m.a. sjá læk sem kemur út um holu í fjallshlíðinni. 
Einnig liggur greinileg gönguleið upp á fjallið frá Landmnnalaugum.
Aldur þess er u.þ.b. 200.000 ár,  Gróður er þunnur, á þeim fáu stöðum sem hann er að finna.

Svartikambur:  Dökkur og grófur og gróðurvana mómergshryggur sem liggur í NA-SV stefnu upp af Reykjadölum í 916 metra hæð y.s. Aldur hans er u.þ.b. 130.000 - 18.000 ár.  Fáir leggja leið sína á hann, en það er ekki erfitt og þaðan fæst gott útsýni yfir Rauðufossafjallasvæðið og Reykjadalina.

Svartikrókur:  Á norð-austur mörkum Friðlands að Fjallabaki rennur Tungnaá mjög hlykkjótt.  Krappasta bugðan myndar n.k. tanga, Svartakrók.  Hann fékk væntanlega nafn sitt af miklum sandi og litlum gróðri.

Sveinsgil:  Eina afgil Jökulgilsins neðan Þrengsla.  Tilkomumikið gil sem klofnar er innar dregur.  Vatn úr Hábarmi rennur öðrumegin og sameinast vatni úr Torfajökli, sem rennur hinumegin frá.

upp

Sölvahraun:  Víðfeðmt, löngu runnið Hekluhraun, sem Dómadalsleið liggur um, vestarlega. Heklugos huldi það vikri árið 1980 og aftur að hluta árið 2000.

 T

Tjörvafell: Við gatnamót Dómadalsleiðar og Fjallabaksleiðar nyrðri stendur reisulegt fjall með tveimur bungum, sú hærri 843 m.y.s. Það er iðjagrænt, utan sára eftir jarðskrið, og vinsælt af rollum.
Auðgengið en nokkuð langt og bratt, ómerkt og fáfarið miðað við staðsetningu og frábært útsýni.  T.d. má sjá bæði ofan í Bláhyl og Ljótapoll.

Torfajökull Stærsti jökull svæðisins, 15 ferkílómetrar, og nafngjafi eldstöðvarinnar og hluta hálendisins. 
Á miðöldum og fram á síðustu öld var hann til muna stærri.  Þá voru Kaldaklofsfjöll, Reykjaföll, Hrafntinnusker og jafnvel vestur að Reykjadölum hluti af honum.  
Hæst punktur núverandi Torfajökuls er 1152 m.y.s. (1192 m. á íslausum hrygg í jökuljaðrinum).  Jökulgilskvíslin fær mikið af vatni sínu úr Torfajökli en auk þess sendir hann margar vænar sprænur til annarra átta. 
Jökullinn er flatur að ofan og auðvelt að ganga á honum en það geta leynst hættulegar sprungur, einkum á jöðrunum, og veður getur breyst fljótlega.  Til eru sögur af mönnum sem hafa villst illilega.  Tafn sitt fær jökullinn af Torfa í Klofa, sem er sagður hafa búið í Hattveri í Jökulgili meðan plága herjaði á landið í lok 15. aldar.

Tungnaá: Jökulfjlót með upptök sí í Tungnaárjökli í Vatnajökli vestanverðum. Hún rennur í Þjórsá, sem meira en tvöfaldast við það að vatnsmagni ( þar sem þær mætast er Þjórsá 135 m3/sek. en Tungnaá 175 m3/sek.). 
Að hluta til markar áin útlínur Landmannaafréttar og að hluta til sker hún hann í sundur.  Landfræðileg lega árinnar og vatnsmagn hennar truflaði fyrrum samgöngur yfir hálendið milli Suðurlands og norð-austur hluta landsins. Hún er reiðfær á fáum stöðum og það gat verið gífurlegt þrekvirki að reka eða teyma yfir hana fé. 
Við Hald kom snemma ferja og kláfur var byggður þar 1964. 
Annar ferjustaður kom 1936 við Bjallavað og við Hófsvað fannst trukkafært vað 1950.  Fyrsta brúin var reist 1967 við Sigöldu.  Síðan er víða akfært yfir, vegna virkjanamannvirkja og síðast árið 2002 var brú tekin í notkum við Hald. 
Önnur og þriðja stærsta vatnsaflsvirkjun landsins, enn sem komið er, eru í Tungnaá, Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjanir.  Samanlögð stærð uppistöðulóna þeirra er 23 km2.  Helstu ár sem renna í Tungnaá eru Jökulgilskvísl og Kaldakvísl. 
Á köflum rennur Tungnaá mjög hlykkjótt, sumstaðar breiðir hún vel úr sér og það er ekki hægt að tala um eiginlega fossa í henni, þó að flúðir eins og þær sem eru við norðurmörk friðlandsins, séu á mörkum þess að vera foss.

 U

Uppgönguhryggur:  Greiðasta leiðin ofan í Jökulgilið innanvert.  Milli Þrengsla og Hattvers.  Langur, flykkjóttur hryggur með bröttum líparítskriðum til beggja handa.

 Ú

upp

 V

Valafell:  Frenur lágt fjall (729 m.y.s.) norðan Heklu.  Það er umfangsmikið en hvergi rismikið, er vel gróið og er að ná sér eftir að Heklugos huldi stóra hluta þess vikri árið 1980. Auðgengið en ómerkt og fremur fáfarið.  Vestan í því er Áfangagil, þar sem er gistiaðstaða.

Valagjá:  Um 5 km löng gjá austur af Valafelli.  Bæði breið og djúp en frekar mjúk í laginu.  Vegur sem liggur til norðurs af Dómadalsleið, hjá Valahnúkum, liggur upp á gjárbarminn.

Valahnúkar:  Sunnan Valafells eru ógrónir, dökkir Klettadrangar sem setja sterkan svip á umhverfi sitt, tæpl. 700 m.y.s.  Þverhníptir og ókleyfir, nema komið sé á milli þeirra eða aftan að þeim.  Sú leið er auðveld og skemmtileg.

Vatnafjöll:  Þessi fjöll eru suð-vestan þess svæðis sem hér um fjallar en "ramma það inn" ásamt Heklu, Laufafelli o.flr.  Þau liggja samsíða Heklu, sunnantil, eru innan eldkerfis hennar og voru voru virk eldfjöll fyrir fáum árþúsundum. 1089 m.y.s.

Veiðivötn:  Vatnaklasi norðan Tungnaár, tilheyrir að stærstum hluta Landmannaafrétti, þrátt fyrir landfræðilegan aðskilnað.  Vinsæl til veiða og gjöful á fisk.  Vatnsstæðin mynduðust flest í kringum 1480 í miklu gosi.

Vesturdalir (Vestur -Reykjadalir):  Dálítið flatlendi, hvar Markarfljót rennur neðan Reykjadala.  Leiðin sem tengir saman Fjallabaksleið syðri og Dómadalsleið liggur um dalina.

Vondugil: Gil milli Brennisteinsöldu og Háöldu.  Námskvíslin á helstu upptök sín þar.  Innan um brattar líparítskriðurnar eru vænar gróðurtorfur þar sem hverir af ýmsum gerðum frussa og hvæsa, ásamt tilheyrandi litadýrð.  Stutt og auðveld gönguleið liggur þangað af Laugaveginum, sunnan Laugahrauns.  Aðgát skal höfð á auðspilltu landi.

Vondugiljaaurar:  Grónir aurar Námskvíslarinnar neðan Vondugilja, "bakvið" Laugahraun.  Gefa útsýni að Háöldu og Suðurnámi ríkulegt gildi.

upp

 Y

 Ý

 Þ

Þjóhnappar (nýyrði):  Ein Hnausaþyrpingin, sú sem rís upp úr eyðimörkinni milli Eskihlíðarvatns og Tjörvafells, 754 m.y.s. Flestir grónir, einkum ofan til. Auðgengir en ómerktir og fáfarnir.

Þjórsá:  Smá kafli hennar dregur vestustu mörk Landmannaafréttar. Lengsta á landsins 230 km.  Með upptök sín í Hofsjökli.  370m3/sek. að meðaltali (niðri í byggð, við Urriðafoss), 135 m3/sek ofan ármóta hennar og Tungnaár og 305 m3/sek neðan þeirra. Vatnasvið 7.530 km2 . 
Fjöldi af fossum. Tvær vatnsaflsvirkjanir.
Þjórsárbrú er í byggð, Ísakotsstífla ofan Búrfells (ekki til almennrar notkunar) og Sandafellsbrú hjá Sultartangavirkjun.

Þrengsli:  Um miðbik Jökulgilsins fellur kvíslin um þröngan farveg milli hárra og margbreytilegra kletta.  Grænn litur er áberandi í berginu þar.

 Æ

 Ö

Öræfi:  Heiti sem náði áður fyrr yfir Veiðivötn, Vatnaöldur og önnur svæði norðan Tungnaár, sem smala þurfti.  Smalarnir þeim megin voru kallaðir Öræfamenn.

upp


 
   íslenska íslenska
 

 
 
   Nína Ivanova & Ómar Smári Kristinsson © 2003—2011


last updated - 01.10.2011