Landmannalaugar.info Google

 Landmannaafréttur 
Staðhættir
Veðurfar
Saga landsins
Saga lífsins:
Gróður
Fuglar
Fiskar
Spendýr
Saga mannsins
Ferðamál:
Friðlandað Fjallabaki
Umgengni
Aðstaða
Innkaup
Gisting
Samgöngur
Akstursleiðir
Gönguleiðir
Reiðleiðir
Hjólreiðar

Kort

Kort

Ómar Smári Kristinsson, 2005: 
Landmannalaugar.Carte pour les marcheurs. Karte für Fussgänger. Kort fyrir göngufólk. Map for hikers.
map2005
map-snap view

Conseil pour la Protection de la Nature, 1985.  La Réserve Naturelle de Fjallabak. 1:100.000

Nature Conservation Agency, 1985.  Fjallabak Nature Reserve. 1:100.000

Nature Conservation Agency, 2002.  Fjallabak Nature Reserve.

Náttúruvernd ríkisins, 2002.  Friðland að Fjallabaki.

Tvö gönguleiðakort, annað af nágrenni Landmannalauga og hitt af friðlandinu og stóru svæði umhverfis það.  Hvorugt kortið er nákvæmt eða áreiðanlegt.  Kortin eru hluti vasabæklings, sem að tveimur þriðju eru litmyndir og upplýsingatexti sem er að hluta til úreltur.

Náttúruverndarráð, 1985.  Friðland að Fjallabaki. 1:100.000

Lítið og vasavænt kort af friðlandinu.  50 m. hæðarlínur, hraun, sandar og gróður og gönguleiðir en ekki allir viðurkenndir akvegir.  Stækkað kort af svæðinu næst Landmannalaugum.  Útgáfuár 1985, en þá mátti enn tjalda við Sólvang, og er það merkt þannig á kortið.  Á bakhlið kortsins er samanþjappaður margháttaður fróðleikur um friðlandið og hefur það löngum verið aðgengilegasta efni þeirrar tegundar sem völ hefur verið á.  Þetta kort/bæklingur er að mestu uppurið en var endurútgefið 2002 með flottum myndum en að öðru leyti lélegra að gæðum.

Der Reichsnaturschutz, 1985.  Naturschutzgebiet Fjallabak. 1:100.000

Der Reichsnaturschutz, 2002.  Naturschutzgebiet Fjallabak.

Landmælingar Íslands Staðfræðikort 1: 50.000

Til langs tíma voru þetta nákvæmustu kort svæðisins en hvert um sig spannar ekki stóran skika.  Til að fá yfirsýn yfir afréttinn allan, þarf 6 kort.  Landmannalaugar lenda í horni eins þeirra.  Til að fá heildarmynd af Laugunum og nánasta umhverfi þeirra, þarf að vera með kort nr. 1812/1, 1813/2, 1912/4 og 1913/3.  Landmannalaugar sjálfar eru á korti 1812/1, en það var uppselt þegar þessi orð voru skrifuð. Kortin sýna ýmislegt (þó gönguleiðir, gróðurfar, friðlandsmörk og vöð séu ekki þar á meðal) og fara rétt með það.  Það eru 20 metrar milli hæðarlína.

Landmælingar Íslands  Atlaskort 1: 100.000

Kort með 20 metra hæðarlínugrunni.  Þrátt fyrir endurútgáfur eru þetta ótrúlega úrelt kort, hvað samgöngur og þjónustu varðar.  Hvorki eru sýnd vöð né friðlandsmörk.  Landmannalaugar lenda í horni, þannig að til að fá allt svæðið, þarf að hafa fjögur kort: nr. 57, 58, 67 og 68.  Það er miklu auðveldara að fá sér sérkortið Landmannalaugar-Þórsmörk.  Þar er allt þetta svæði inni, upplýsingarnar nýjar og mælikvarðarnir þeir sömu.

Landmælingar Íslands Sérkort - Landmannalaugar Þórsmörk 1:100.000

Þetta er besta kortið sem enn er völ á fyrir afréttinn nær allan og gönguleiðina til Þórsmerkur og Skóga. Hekla og hraun hennar eru merkt inn.  Útgáfuár er 2000 og eru upplýsingar að jafnaði réttar.  Helst til mikið er þó sýnt af vegslóðum sem deilt er um hvort almenningur skuli nota.  Blaðstærð: 74 x 59 cm.  20 metra hæðarlínugrunnur.  Engin nafnaskrá.
 

Landmælingar Íslands Aðalkort 6 - Mið Suðurland 1:250.000

Þetta er það aðalkort sem Fjallabakssvæðið og nágrenni þess lenda inn á.  Það á að fara að breyta aðalkortafyrirkomulaginu hjá Landmælingum, þannig að þau verði bara þrjú.  Þá lendir þetta svæði inn á suð-vestur -kortinu. Blaðstærð: 61 x 86 cm.  Kortið er með 20 metra hæðalínugrunni. Á bakhliðinni er nafnaskrá. Útgáfuár: 1999

Mál og menning Sérkort - Fjallabak 1:100.000

Litfagurt akvega- og gönguleiðakort, sem nær yfir Landmannaleið, Fjallabak syðra og leiðina í Lakagíga.  En því miður, þetta efnilega kort er allt vaðandi í villum og getur verið verra en ekki neitt.  Reyndar stendur endurútgáfa þess fyrir dyrum og þá á að vera búið að kippa vitleysunum í liðinn.

Mál og menning: Hálendið 1:300.000

Mál og menning gaf út fjórðungskort af landinu.  Þetta er fimmta kortið í þeirri seríu og sýnir mjög stóran hluta þess.  100 metrar eru á milli hæðarlína.  Þar sem kort þetta er þrefalt grófara en Fjallabaks- sérkortið, er minna pláss fyrir villur en nokkrar andstyggilegar vitleysur er þar þó að finna.  Á bakhlið kortsins er skálaskrá með staðsetningum og lýsing á 18 hálendisperlum á fjórum tungumálum og með flottum litljósmyndum.

Ferðafélag Íslands:  Gönguleiða- og örnefnakort af Landmannalaugum og nágrenni  1:25.000

Mjög nákvæmur grunnur með aðeins 5 metrum á milli hæðarlína, unnið fyrir Orkustofnun.  Kortið spannar ekki nema u.þ.b. 14x17 km. af landi, en innan þess svæðis eru allar helstu gönguleiðir í kringum Landmannalaugar.  Hrafntinnusker nær því að vera inni á suðurkantinum.  Mikið örnefnagrúsk liggur að baki kortinu og kemur þar ýmislegt á óvart, jafnel kunnugu fólki.  Hefur kortið þegar komið af stað spennandi umræðum þar sem sitt sýnist hverjum.  Því miður eru gönguleiðirnar ónákvæmt, og stundum vitlaust merktar inn á þennan frábæra grunn.  Auk þess er enginn greinarmunur gerður á merktum leiðum og ómerktum eða erfiðum leiðum og léttum.  Ekki er minnst orði á vegalengd, tímalengd, erfiðleikastig, hættur, áhugaverð ferðatakmörk eða yfirleitt nokkuð.  Tveir löngu aflagðir bílslóðar, sem harðbannað er að aka eftir, eru sýndir á korti þessu.  Þeir sem treysta um of á merkingar þessa korts eiga á hættu að skaða bæði landið og sjálfa sig. Kortið kom út vorið 2003.

Aðalskipulag svæðisins

Bæði gamla skipulaginu og því sem brátt er von á fylgja kort.  Ekki er hægt að mæla með þeim sem ferðakortum.  Í fyrsta lagi eru þar sýndir hlutir sem ekki eru enn orðnir (og yfirleitt urðu aldrei og verða aldrei) og í öðru lagi eru þeir sem að skipulagsmálum koma ekkert alltof kunnugir staðháttum.

Upplýsingabæklingur Rangárþings ytra

Loks er Rangárþing komið í hóp þeirra sýsla sem bjóða ferðfólki upp á ókeypis yfirlitskort með afþreyingu, þjónustu og þekktum ferðamannastöðum.  Lesmálið er á íslensku, ensku og þýsku.  Þetta kort er ekki til þess að rata eftir, enda er, svo dæmi sé tekið, friðlandið álíka stórt og fullorðinn mannslófi.  Þetta kort var unnið í miklum flýti, svo að inn slæddust villur.  Næsta sumar verður komin ný og betri útgáfa af þessu þarfa framtaki.

Samvinnunefnd um svæðisskipulag Miðhálendis Íslands: Svæðisskipulag 2015 og svæðisskipulag 2015- Mannvirki

Mannvirkjakortið inniheldur nær allar byggingar á hálendinu og útskýrir hvers eðlis þær eru.  Hitt kortið sýnir öll þau mannanna verk sem eru til eða eru fyrirhuguð næsta áratuginn á hálendinu.  Verndarsvæði, landgræðslusvæði og önnur núverandi eða tilvonandi landnotkun er dregin upp.  Það kemur fátt nýtt fram varðandi skipulag á Landmannaafrétti.

Náttúrufræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands:  Jarðfræðikort, blað 6 - Miðsuðurland

Torfajökulssvæðið er miðsvæðis á þessu korti, sem nær langt norðurfyrir Þórisvatn.  Tegund og gróf aldursskifting efstu berglaga sýnd með skýrum litamerkingum.  Tvær þverskurðarmyndir gefa hugmynd um það sem undir býr.  Mælikvarðinn er 1:250.000.

Landsvirkjun: Ferðaleiðir sunnan Hofsjökuls

Mælikvarðinn er 1:125.000.  Hæðarlínur með 100 metra millibili.  Landmannalaugar sjálfar ná því ekki að vera inni á þessu korti, en nokkru norðar hefst það og spannar svæði norður í Hofsjökul.  Fyrir lítt fróðan mann eins og mig, er ekki annað að sjá en að hér sé rétt og gagnlegt kort fyrir fólk til að átta sig á legu reiðleiða, gönguleiða, akvega og þjónustu.  Það dugar þó ekki sem eina kort göngumanns á langferðum.  Á bakhlið er mikill og myndskreyttur fróðleikur um fjölda hálendisstaða og lýsing á þeim gönguleiðum sem merktar eru inn á kortið.  Einnig þjónustuskrá og GPS-punkta-listi.  Þetta kort er líka til á ensku

 

 

 

 

 
   Nína Ivanova & Ómar Smári Kristinsson © 2003—2011

last updated - 01.10.2011